Kona og barn köstuðust út í bílveltu

Laust fyrir klukkan 20:00 í kvöld barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um bílveltu á Suðurlandsvegi austan Víkur í Mýrdal, skammt frá Álftaveri. Um var að ræða erlent par ásamt ungu barni.

Konan og barnið virðast hafa kastast út úr bifreiðinni og er konan talin alvarlega slösuð en aðrir hlutu minni meiðsli.

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið um kl. 20:20 og lenti á slysstað kl. 21:15. Var konan flutt yfir í þyrluna sem flutti hana á bráðamóttökuna í Fossvogi þar sem áætlað var að lenda rétt fyrir klukkan ellefu í kvöld.​

Ökumaðurinn og barnið voru flutt með sjúkrabifreiðum.

Tildrög slyssins eru enn ókunn en unnið er að rannsókn á vettvangi.

UPPFÆRT KL. 23:14

Fyrri greinFjórir Sunnlendingar í ungmennaráði
Næsta greinVinavika framundan í körfuboltanum