Komu niður á heitt vatn á Langanesi

Bormenn Ræktunarsambands Flóa og Skeiða komu niður á heitt vatn í dag við Jórutún á Langanesi á Selfossi í dag. Jarðhitaleit hefur staðið yfir á svæðinu í vetur.

Vatnið sem kom upp núna er um 57°C heitt og magnið áætlað um 10-15 sekúndulítrar. Búið er að bora niður á 150 metra dýpi.

„Verkefnið er hluti af jarðhitaleit fyrir Selfossveitur sem staðið hefur yfir á svæðinu við Jórutún og Miðtún í vetur, til þess að tryggja nægilegt magn af heitu vatni fyrir ört stækkandi samfélag. Það ræðst af framganginum hvenær verður stoppað, en áfram verður borað á meðan hitinn hækkar. Það er líklegt að hitastigið hækki þegar dýpra er borað en æskilegt er að hitastigið á vatninu sé ekki undir 60°C til þess að það teljist nýtanlegt,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Að sögn Ástu er einnig verið að bora eftir heitu vatni í Laugardælum og munu endanlegar niðurstöður þeirrar borunar liggja fyrir innan tíðar.

Fyrri greinUpplestur og myndlist í bókasafninu á Selfossi
Næsta greinBarnabókaupplestur í Bókakaffinu