Komst niður af sjálfsdáðum

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurlandi auk vélsleðamanna af höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út um hálftíuleytið í kvöld vegna manns sem var í sjálfheldu á Hlöðufelli, sunnan við Langjökul.

Maðurinn var í göngu á Hlöðufelli og óskaði eftir aðstoð þar sem hann var í sjálfheldu auk þess að vera orðinn kaldur og örmagna. Hann komst þó niður af sjálfsdáðum, heill á húfi.

Í þann mund sem fyrstu björgunarsveitarmenn og þyrla Landhelgisgæslunnar komu á staðinn kom í ljós að jeppi sem maðurinn og félagi hans voru á var farinn. Þyrlan fann jeppann á leið niður í Kaldadal, lenti hjá honum og gekk úr skugga að maðurinn væri heill á húfi.