Komnir á staðinn fimm mínútum eftir útkall

Ljósmynd/Tintron

Hjálparsveitin Tintron í Grímsnesi fékk fyrsta útkall ársins í hádeginu í dag þegar aðstoða þurfti við sjúkraflutning vegna ferðamanns sem hafði dottið og slasast á göngu í kringum Kerið.

Þrír félagar hjálparsveitarinnar voru staddir í nágrenninu og voru þeir komnir á staðinn á fyrstu fimm mínútunum frá því að útkallið barst. Þrír aðrir komu svo til viðbótar og var sjúklingurinn borinn frá suðurhlið Kersins um 400 metra leið niður á bílaplan þar sem sjúkrabíll beið.

Mikill þjappaður snjór er á gönguleiðinni og var leiðin því verulega hál yfirferðar.

Tveir félagar úr Tintron tóku svo bíl fólksins með sér á HSU á Selfossi þegar aðgerðum var lokið.

Fyrri greinHámarksútsvar hjá öllum nema GOGG
Næsta greinStórtjón í Flúðaskóla eftir að varmaskiptir gaf sig