Koma sér í form með hjálp Facebook

„Námskeiðið virkar þannig að þú skráir þig í hóp á samfélagsmiðlinum Facebook og færð síðan verkefni og markmið fyrir hverja viku,“ segir Selfyssingurinn Harpa Rut Heiðarsdóttir en hún stendur fyrir heilsunámskeiði sem ber heitið Markmiðs stuðningur.

„Eftir að ég útskrifaðist sem einkaþjálfari frá ÍAK árið 2013 var ég búin að vera með smá verkefni í „maganum“ sem ég lét síðan verða að veruleika fyrr á þessu ári. Ég tók smá sumarfrí í sumar en er að byrja aftur með námskeiðin 1. september,“ segir Harpa.

„Hver og einn vinnur að markmiðunum sem ég set fyrir en einnig setja þeir sem í hópnum eru sín eigin markmið sem þeir halda út af fyrir sig en njóta jafnframt stuðnings frá öðrum í hópnum. Það er gott að geta varpað fram spurningum og fá stuðning frá öðrum sem eru í sömu sporum. Ég tek síðan stöðuna á hverjum og einum í lok hverrar viku í gegnum tölvupóst. Þannig að þetta er líka einstaklingsmiðað,“ segir Harpa. Markmiðin tengjast andlegu hliðinni, hreyfingu og mataræði.

„Ég og þeir sem í hópnum eru, setja inn í hópinn allt það sem okkur vantar svör við eða það sem okkur finnst virka og viljum deila með hópnum. Þetta er mjög fræðandi, áhugavert og mjög hvetjandi um leið. Það er í raun algert skilyrði að vera virkur í hópnum til þess að þetta virki eins og það á að virka,“ segir Harpa.

Að sögn Hörpu er námskeiðið fyrir alla þá sem vilja bæta lífstíl sinn. „Þú getur verið hvar sem er í heiminum og tekið þátt vegna þess að þetta fer allt fram á netinu. Þetta er fjögurra vikna plan og þyngist með viku hverri. Þetta eru ekki prógrömm heldur markmið sem allir geta unnið að. Við erum að taka litlu skrefin í átt að bættum lífsstíl. Engar öfgar!“ segir Harpa.

Harpa þekkir það vel hvernig það er að vera ekki í formi og ánægjuna sem fylgir því að ná markmiðum sínum. „Þegar ég var unglingur og fram yfir tvítugt þá var ég í mikilli yfirþyngd og stundaði engar íþróttir. Ég var virkilega feimin með líkamsástand mitt og óörugg um getu mína til að stunda íþróttir. Sjálfstraustið var ekkert!“

„Árið 2010, þegar ég var búin að missa alla von um að komast í betra form, þá kynntist ég kraftlyftingum. Hjólin fóru að snúast. Árangurinn lét ekki á sér standa og áhuginn fyrir heilbrigðu lífi varð alltaf meiri og meiri! Ég hef tekið miklum breytingum, líkamlega og andlega, á síðustu árum og er enn að vinna í þvi að verða betri útgáfa að sjálfri mér,“ segir Harpa.

Sem fyrr segir þá útskrifaðist Harpa sem ÍAK einkaþjálfari árið 2013. „Þó að tilgangurinn með náminu hafi verið sá að öðlast meiri þekkingu fyrir sjálfa mig þá færðist áhuginn yfir í að vilja miðla henni til fólks og sýna fólki að það geta allir snúið við blaðinu þó að vonin sé lítil, alveg eins og ég gerði.“

Harpa heldur einnig uppi síðunni Heilræði og Lífsstíll á Facebook þar sem hún kemur með góðar hugmyndir til að halda sér og öðrum við efnið. „Á síðunni legg ég áherslu á jákvæðnina, lífsgleðina og að líta björtum augum á þau verkefni sem við þurfum að takast á við,“ segir Harpa sem að auki aðstoðar við þjálfun hjá KraftBrennzlunni á Selfossi.

„Ég er ekki fullkomin og ég veit það núna að enginn er fullkominn! Þú þarft bara að læra að vera sátt/ur í eigin skinni. Ef við byggjum okkur ekki upp andlega þá er erfitt að byggja annað upp. Það er í raun kjarninn að þessu öllu saman, andleg vellíðan,“ segir Harpa.

„Ég á enn langt í land í að ná markmiðum mínum og ég veit alveg hvernig það er að vera að ströggla við það að vera sátt við sjálfa mig. Koma sér í betra form. Baráttuna við að halda sér við efnið. En við getum þetta öll. Stundum þurfum við bara stuðning!“ segir Harpa að lokum.

Frekar upplýsingar um námskeiðið má finna hér.

Fyrri greinRagnarsmótið verður líka kvennamót
Næsta greinHamar marði Kóngana