Kolvitlaust veður á Laugarvatni í nótt

Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatn var kölluð út þrisvar í nótt en kolvitlaust veður var í Laugardalnum í gærkvöldi og fram á nótt.

Festa þurfti þak á íbúðarhúsi og tryggja hurð á útigeymslu sem var við það að fjúka upp. Þá fékk bátaskúrinn við Laugarvatn flugferð með öllu auk þess sem nokkrar flaggstangir og stór tré brotnuðu á Laugarvatni. Þar muna heimamenn ekki eftir öðru eins veðri í langan tíma.

Lögreglan á Selfossi fékk sex beiðnir um aðstoð í gær og í dag vegna veðurs, en þakplötur og ýmislegt annað lauslegt fór á flug. Þá fóru björgunarsveitir á Uxahryggi og Kjöl til að aðstoða ökumenn.

Þá hefur lögreglan á Selfossi fengið nokkur símtöl eftir helgina þar sem fólk tilkynnir foktjón. Í þeim tilvikum er mest er um það að hlutir hafi fokið á bifreiðar.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill ítreka að ferðaaðstæður geta enn versnað næsta sólarhringinn. Fólk er hvatt til að vera ekki á ferðinni nema brýna nauðsyn beri til. Í ljósi þess að margir þeir sem þurftu á aðstoð björgunarsveita að halda í gær og í nótt voru erlendir ferðamenn eru ferðaþjónustuaðilar hvattir til að upplýsa sína gesti mjög vel um færð og veður á þeim slóðum sem þeir hyggjast fara um.

Fyrri greinBókamarkaðnum lýkur á laugardaginn
Næsta greinStórmeistari kennir skólakrökkum skák