Kolmónoxíð langt yfir leyfilegum mörkum

Ryk, kolmónoxíð og vetnisklóríð hafa mælst yfir viðmiðunarmörkum í sorpbrennslunni á Kirkjubæjarklaustri. Sorpbrennslan er tengd íþróttahúsinu og grunnskólanum.

Stjórn foreldrafélags í Kirkjubæjarskóla vill að börn njóti vafans þegar rætt er um hugsanlega skaðsemi vegna mengunar frá stöðinni.

Sorpbrennslan á Kirkjubæjarklaustri er tengd íþróttahúsi og grunnskóla en skýringin á staðsetningunni er sú að stöðin er notuð til að hita upp vatn fyrir skólann og íþróttahúsið, þar með talið sundlaugina á Klaustri. Skólayfirvöld hafa rætt málið við sveitarstjórnina og meðal hugmynda er að hætta að brenna sorpi á skólatíma. Einnig er beðið eftir nýjum mælingum.

Samkvæmt mengunarmælingu sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands gerði um miðjan ágúst á síðasta ári er ryk frá Sorporkustöðinni í Skaftárhreppi um þriðjungi yfir viðmiðunarmörkum. Kolmónoxíð mældist þá sexfalt miðað við það sem leyfilegt er og rúmlega tvöfalt meira var af vetnisklóríði í útblæstri stöðvarinnar en ætlast er til.