Kolbeinn vill leiða VG í Suðurkjördæmi

Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, gefur kost á sér í 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi, í forvali sem framundan er hjá flokknum.

„Ég hef setið á þingi fyrir VG síðan 2016, í Reykjavíkurkjördæmi suður, en hugurinn stefnir nú í Suðurkjördæmi. Þar liggja ættir mínar, fyrst og fremst í uppsveitum Árnessýslu. Ófáar stundirnar hef ég átt í Þjórsárdal þar sem mín ætt hefur búið í um eina og hálfa öld, fyrst hjá ömmu og afa og síðan í sumarbústað fjölskyldunnar. Ekki skemmir heldur að vera barnabarnabarn Gests á Hæli þegar kíkt er í Skaftholtsréttir. Þess naut ég þegar ég leiddi lista VG í kjördæminu árið 2003, þó ekki hafi það skilað þingsæti þá,“ segir Kolbeinn.

Hann segir gríðarlega mikilvægt að stórt landsvæði eins og undir er í Suðurkjördæmi eigi fulltrúa Vinstri grænna á þingi.

„Ari Trausti Guðmundsson hefur gegnt því hlutverki af sóma og það væri mér heiður að fá að halda áfram því góða starfi. Ég vil leggja mitt af mörkum til að Vinstri græn hljóti sem besta kosningu í haust.“

Kolbeinn hefur setið í þremur nefndum á þingi; atvinnuveganefnd, umhverfis- og samgöngunefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hann segir áhugasvið sín endurspeglast þar.

„Ég hef komið að stefnumótun í atvinnugreinum til sjós og lands og lagt til umbætur á sviði þjónustu við innflytjendur sem mun sjást best í stofnun Ráðgjafastofu fyrir innflytjendur innan tíðar. Þá hef ég komið að loftslagsmálum, umhverfis- og náttúruverndarmálum og m.a. leitt vinnu við heildarendurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum sem er á lokametrunum,“ segir Kolbeinn og bætir við að fjölmörg mikilvæg verkefni séu framundan.

„Enda lifum við krefjandi tíma í miðjum heimsfaraldri og efnahagslægð hans vegna. Viðspyrnan er hafin og hún verður stóra verkefni næstu missera. Við þurfum að skapa störf og vinna á því atvinnuleysi sem hrjáir allt of marga. Þar eru ærin verkefni í Suðurkjördæmi, allt of mörg hafa misst vinnuna og huga þarf sérstaklega að þeim. Ég býð fram krafta mína í þessi verkefni og vona að félagar mínir í VG í Suðurkjördæmi treysti mér til starfans,“ segir Kolbeinn að lokum.

Fyrri grein„Þakklát og spennt fyrir þessu samstarfi“
Næsta grein552 nýir skammtar af bóluefni á Suðurland í þessari viku