Kokkarnir taka við Krúsinni

Matreiðslumennirnir Fannar Geir Ólafsson og Tómas Þóroddsson hafa tekið við rekstri Kaffi Krúsar á Selfossi.

Tómas, sem er Selfyssingur, þekkir vel til á staðnum enda hefur hann verið þar í eldhúsinu í að verða tvö ár. Fannar, sem er líka Selfyssingur, útskrifaðist frá Hótel Sögu og hefur starfað m.a. á Texture í Lundúnum, Hótel Flúðum, Square, Turninum og fleiri góðum stöðum.

Þeir hafa gert fimm ára leigusamning við eigendur staðarins, þau Þórunni Guðmundsdóttur og Leó Árnason.

„Við munum kynna nýjan matseðil í næstu viku,“ segja þeir félagarnir. Þá verður boðið upp á hópamatseðla, sem felur í sér að fólk getur komið á staðinn í stærri hópum og pantað matinn fyrirfram.

„Þá kynnum við einnig þá nýjung að bjóða upp á veisluþjónustu, þar sem við komum á staðinn og setjum upp veislur af öllum stærðargráðum,“ segir Tómas. Að öðru leyti verður áfram keyrt á þeim góða grunni sem þessi vinsæli veitingastaður hefur verið rekinn á, að sögn þeirra félaga.

Fyrri greinMaðurinn ófundinn
Næsta greinLesið úr nýjum bókum í Bókakaffinu