Köfunarslys í Silfru

Lögregla og sjúkralið var kallað að Silfru í Þingvallavatni í hádeginu í dag þar sem kafari lenti í vandræðum með búnað sinn.

Maðurinn var á átján metra dýpi og þurfti að skjóta sér upp á yfirborðið en svo virðist sem bilun hafi komið upp í köfunarbúnaði hans.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi var maðurinn nokkuð brattur eftir þessa reynslu en þegar farið er hratt upp á yfirborðið af svona miklu dýpi er hætta á að menn veikist.

Kafarinn var fluttur á slysadeild og hefur lögreglan á Selfossi málið til rannsóknar.