Klippum beitt til að ná ökumanni út eftir veltu

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Einn var fluttur á sjúkrahús eftir bílveltu á Auðsholtsvegi í Hrunamannahreppi eftir hádegi í dag.

Ökumaðurinn var einn í bílnum og sat fastur í honum eftir veltuna. Talsverður viðbúnaður var vegna slyssins en lögregla og sjúkralið fór frá Selfossi ásamt því sem tækjabíll fór á staðinn frá Brunavörnum Árnessýslu á Flúðum og viðbragðshópur Björgunarfélagsins Eyvindar var kallaður út. Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út en síðan afturkölluð þegar í ljós kom að meiðsli ökumannsins voru minni en í fyrstu var talið.

Að sögn Lárusar Kristins Guðmundssonar, setts varaslökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu, þurftu slökkviliðsmenn að klippa hurð af bílnum svo hægt væri að ná ökumanninum út úr bílnum og var hann síðan fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Fyrri greinVilltist í svartaþoku í Henglinum
Næsta greinBláskógaskokkið 50 ára – afmælishlaup 12. júní