Klippt á borða á nýja Suðurlandsveginum

Sólin skein loks á gesti þegar skærin voru munduð til að klippa á borða í tilefni af þessum merku tímamótum. Ljósmynd/Vegagerðin

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu formlega í dag nýjan Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss.

Verkið er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020.

Þór regnið hafi dunið á gestum og ræðufólki við opnun nýja Suðurlandsvegarins, braust sólin fram undan skýjunum rétt áður en Sigurður Ingi og Bergþóra fengu skæri í hönd til að klippa á borða í tilefni af þessum merku tímamótum.

Bergþóra var afar ánægð að geta opnað veginn á þessum tímapunkti, fjórum mánuðum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Ég vil þakka ÍAV fyrir einstakt samstarf í þessari framkvæmd. Það er sérlega sætt að geta opnað veginn fyrir sumarið, það munar um minna,“ sagði Bergþóra og benti á að umferðin á þessum vegi hefði stökkbreyst á síðustu tuttugu árum og að með nýjum vegi myndi umferðaröryggi stóraukast.

Sigurður Ingi var einnig mjög ánægður með þessi tímamót enda ekur hann Suðurlandsveginn nánast daglega til og frá vinnu.

Sólmundur Sigurðarson ók ráðherra í glæsilega uppgerðri Benz bifreið frá vígslustað. Ljósmynd/Vegagerðin
Fyrri grein„Snýst um að gera eitthvað öðruvísi og skemmtilegt“
Næsta greinJafnt í Suðurlandsslagnum – Uppsveitir fengu skell