Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu formlega í dag nýjan Suðurlandsveg milli Hveragerðis og Selfoss.
Verkið er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020.
Þór regnið hafi dunið á gestum og ræðufólki við opnun nýja Suðurlandsvegarins, braust sólin fram undan skýjunum rétt áður en Sigurður Ingi og Bergþóra fengu skæri í hönd til að klippa á borða í tilefni af þessum merku tímamótum.
Bergþóra var afar ánægð að geta opnað veginn á þessum tímapunkti, fjórum mánuðum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir. „Ég vil þakka ÍAV fyrir einstakt samstarf í þessari framkvæmd. Það er sérlega sætt að geta opnað veginn fyrir sumarið, það munar um minna,“ sagði Bergþóra og benti á að umferðin á þessum vegi hefði stökkbreyst á síðustu tuttugu árum og að með nýjum vegi myndi umferðaröryggi stóraukast.
Sigurður Ingi var einnig mjög ánægður með þessi tímamót enda ekur hann Suðurlandsveginn nánast daglega til og frá vinnu.