Klemmdist á milli bifreiða á Suðurlandsvegi

Alls voru 25 umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. Í einu þeirra, bílveltu á Mýrdalssandi austan við Hjörleifshöfða, slösuðust tveir ferðamenn og voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík.

Skoðun þar leiddi í ljós að áverkar þeirra voru ekki alvarlegir.

Þá slasaðist ökumaður bifreiðar á Suðurlandsvegi við Hellisheiðarvirkjun alvarlega eftir hádegi síðastliðinn fimmtudag en hann hugðist draga bifreið sem hann kom að úr festu í snjó. Skafbylur var og kóf og ekki vildi betur til en svo að þriðju bifreiðinni var ekið aftan á þá sem sat föst sem kastaðist við það áfram og klemmdi manninn á milli bifreiðanna. Hann mun meðal annars hafa hlotið opið lærbrot við slysið.

Veginum var lokað vegna veðurs og aðstæðna síðar sama dag og þurftu björgunarsveitarmenn úr Reykjavík og úr Árnessýslu að vinna fram á kvöld við að aðstoða fólk vegna ófærðarinnar.