Klausturskeppnin blásin af

Klausturskeppninni í þolakstri mótorhjóla sem fara átti fram á Kirkjubæjarklaustri á morgun, sunnudag, hefur verið aflýst vegna öskufoks.

Í tilkynningu frá keppnisstjórn segir að aðstæður bjóði hreinlega ekki upp á það að keppt sé á svæðinu þessa helgi.

Mikið öskufjúk er á keppnissvæðinu, skyggni um 500-600 metrar og í grasinu er 4-6 sm öskulag.

Mótshaldarar hafa heimilað keppendum að hjóla í brautinni í dag og á morgun. Ráslistinn frá skráningu mun gilda áfram og verður keppnin haldin á næsta ári.