Klausturhólar þurfa rekstrarlán

Skaftárhreppur þarf að taka fimmtán milljón króna lán vegna rekstrarvanda dvalarheimilisins Klausturhóla á Kirkjubæjarklaustri.

Einnig stendur til að leita til ríkisins vegna fjárhagshalla heimilisins. Margrét Aðalsteinsdóttir hætti sem hjúkrunarforstjóri í vor og hefur Sigþrúður Ingimundardóttir verið ráðin í hennar stað.

Bjarni Daníelsson, formaður rekstrarnefndar Klausturhóla, segir í samtali við Sunnlenska fréttablaðið að fjárhagsvandinn stafi af tímabundinni fækkun á dvalarheimilinu og langvarandi forfalla fráfarandi hjúkrunarforstjóra vegna veikinda. „Þetta tvennt helst í hendur. Ef að það eru áföll í yfirstjórn er erfiðara að bregðast við í rekstrinum.“