Söngkonan Klara Einars er búin að vera á fleygiferð í sumar og kom meðal annars fram á Kótelettunni á Selfossi og svo stóð hún á stóra sviðinu á Þjóðhátíð þegar mesti stormurinn gekk yfir Vestmanneyjar.
Klara kemur aftur á Selfoss um helgina og verður á Sumar á Selfossi annað kvöld ásamt Skítamóral og Koppafeiti. Hún sendir frá sér nýtt lag, 2100 (Tvö þúsund og hundrað), þann 22. ágúst næstkomandi. Lagið er samið af Klöru sjálfri og upptökustjóranum Daybright/Dagbjarti Jónssyni og hljóðblandað af Sæþóri Kristjánssyni. Þetta er tíunda lagið sem Klara gefur út ein eða í samstarfi við aðra tónlistarmenn frá árinu 2023.
Á stóra sviðinu þegar versta veðrið gekk yfir
Klara steig nýverið á svið á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum í fyrsta sinn, einmitt aðfaranótt laugardags þegar mikið óveður gekk yfir eyjuna. Hún var meðal þeirra listamanna sem komu fram á stóra sviðinu við mjög krefjandi aðstæður.
„Þetta var alveg mögnuð lífsreynsla. Við vorum þarna í auga stormsins. Allir skipuleggjendur pollrólegir og yfirvegaðir, hörðustu djammararnir ennþá í biluðu stuði og teknótjaldið bara flogið út í veður og vind. Þetta var kreisí,“ segir Klara. „En eins og sagt er í bransanum ‘the show must go on’ – og við óðum bara í þetta þegar kallið kom.“
Það gleymir enginn þessu kvöldi
Klara segir að hún hafi ekki verið viss um að fá að stíga á svið meðan veðrið var sem verst.
„Á tímabili áttum við allt eins von á því að restinni af dagskránni yrði frestað. En Viktor og Palli, sviðsstjórar, héldu okkur vel upplýstum og það var í raun aðeins nokkurra mínútna seinkun upp úr miðnætti – þegar brennan hefði átt að vera. Að koma fram á Þjóðhátíð er stórt fyrir alla listamenn og við vorum búin að leggja mikla vinnu í undirbúning. Við settum allt í botn og buðum upp á geggjaða sýningu – eins og allir hinir sem komu fram þetta kvöld. Ég held að enginn sem var þarna gleymi þessari Þjóðhátíð.“
Sem fyrr segir verður Klara á Sumar á Selfossi á laugardagskvöld og það er nóg að gera framundan en á næstunni kemur hún fram á bæjarhátíðunum Reykhóladögum, Menningarnótt og Í túninu heima. Samhliða þessum viðburðum vinnur Klara að nýrri tónlist sem væntanleg er í haust.
Klara á Spotify – Klara á Instagram


