Klakastífla í Hvítá

Á suðurbakka Hvítár, norðan við Langholt í Flóahreppi. Myndin er tekin í febrúar 2018. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Í gærkvöldi fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um að klakastífla væri í farvegi Hvítár fram af landi Vaðness í Grímsnesi. Stíflan er sögð loka ós Höskuldslækjar og leggst vatn úr honum nú að sumarhúsabyggð á bökkum árinnar norðanmegin.

Ekki er vitað til þess að tjón hafi orðið af en samkvæmt tilkynningunni hafði tilkynnandinn fyrst orðið þessa ástands var í fyrradag og í gær hafði heldur sjatnað í árfarveginum.

Lögreglan hefur upplýst sveitarstjóra í Grímsnes- og Grafningshreppi, Flóahreppi og í Árborg um málið og verður staðan skoðuð í dag þegar bjart er orðið.

Í febrúar 2018 kom klakastífla á sama stað og flæddi þá að umræddum sumarhúsum þannig að eitthvert vatnstjón hlaust af. Sú stífla ruddi sig skömmu síðar.

Fyrri greinBílar frusu fastir við veginn
Næsta greinSigríður safnar fyrir keppnisferð til Bandaríkjanna