Kjúklingar féllu af flutningabíl

Kjúklingaflutningabíll tapaði hluta af farmi sínum í hringtorginu á Hellu á áttunda tímanum í morgun án þess að ökumaður bílsins yrði þess var.

Kjúklingarnir voru í kössum og féllu nokkrir kassar af þegar hurð á bílnum opnaðist. Kassarnir héldust þó lokaðir svo fiðurféð fékk ekki að skoða sig um á Hellu.

Bíllinn var á leið frá kjúklingabúinu á Ásmundarstöðum og farmurinn átti að fara til slátrunar á Hellu. Í fyrstu var talið að kassarnir hefðu aðeins dottið af í hringtorginu á Hellu en síðar kom í ljós að hurðin hafði opnast þegar bíllinn beygði inn á Þjóðveg 1 við Ásmundarstaði og þar féllu nokkuð margir kassar út. Einnig höfðu nokkrir kassar dottið af bílnum við Landvegamót.

Alls féllu yfir 100 kassar af bílnum með um 2.000 kjúklingum og eitthvað af þeim drapst. Hinum var komið til slátrunar.

Fyrri greinSeiglusigur hjá FSu
Næsta greinEnn finnst DDF við Steingrímsstöð