Kjörstjórnin segir af sér

Kjörstjórn þjóðkirkjunnar hefur sagt af sér eftir að yfirkjörstjórn lýsti niðurstöðu fyrri umferðar um kosningu vígslubiskups í Skálholti ógilda.

Kjörstjórnin hittist á fundi í dag og fór yfir málið. Það var niðurstaða hennar að segja af sér til að skapa traust og trúverðugleika um framhald kosningarinnar. Eftirfarandi bókun var gerð á fundinum:

„Kjörstjórn fór yfir næstu skref í ljósi niðurstöðu yfirkjörstjórnar í máli nr. 10/2011. Eftir að hafa farið yfir og rætt ýmsar hliðar málsins er það niðurstaða kjörstjórnar, að til þess að skapa traust og trúverðugleika um framhald kosningarinnar sé rétt að undirrituð, aðalmenn í kjörstjórn, segi af sér.

Anna G. Björnsdóttir
Jóhann E. Björnsson
Arnfríður Einarsdóttir“

Varamenn í kjörstjórn munu því taka við framkvæmd kosninganna. Þeir eru Gísli Baldur Garðarsson, hrl., Halla Bachmann Ólafsdóttir, lögfræðingur og Inga Rún Ólafsdóttir, kirkjuþingsmaður.

Yfirkjörstjórn þjóðkirkjunnar tók kæru vegna kosninga til embættis vígslubiskups í Skálholti fyrir á fundi sínum 26. apríl sl. Kæran barst frá lögmanni eins frambjóðanda og laut að talningu tveggja atkvæða sem póstlögð voru 11. apríl, en samkvæmt bréfi kjörstjórnar skyldi póstleggja atkvæði í síðasta lagi 8. apríl.

Niðurstaða yfirkjörstjórnar var sú að fella hinar kærðu kosningar úr gildi og að kosið skyldi að nýju. Í úrskurði hennar segir: „Hinar kærðu kosningar eru úr gildi felldar og kosið skal að nýju til vígslubiskups í Skálholti.“

Fyrri greinMikil ánægja með nýtt mötuneyti
Næsta greinSelfoss í undanúrslit eftir stórsigur á Fram