Kjördæmaþing Samfylkingarinnar á sunnudaginn

Samfylkingin í Suðurkjördæmi heldur kjördæmaþing á sunnudaginn í Reykjanesbæ. Fyrir þinginu liggur að taka ákvörðun um fyrirkomulag vals frambjóðenda á framboðslista vegna alþingiskosninganna næsta vor.

Stjórn kjördæmisráðs leggur tillögu fyrir kjördæmaþingið um að valið fari fram með flokksvali laugardaginn 17. nóvember. Í tillögunni kemur fram að kjördæmisráðið muni velja hvort flokksmenn einir muni hafa kosningarétt eða flokksmenn og skráðir stuðningsmenn. Einnig að ráðið velji hvort settur verði upp paralisti eða fléttulisti samkvæmt reglum Samfylkingarinnar um aðferðir við val á framboðslista. Kjósa skal sjö frambjóðendur í flokksvalinu og er kosningin bindandi í fjögur efstu sætin.

Þá verður kosin á kjördæmaþinginu fimm manna kjörstjórn sem stýra mun framkvæmd flokksvalsins og fimm manna uppstillingarnefnd, sem ásamt fjórum efstu mönnum í flokksvalinu, mun leggja fullskipaðan framboðslista fyrir kjördæmaþing á nýju ári.