Kjartan kveður og Grímur tekur við

Grímur og Kjartan í kveðjuhófinu á þriðjudag. Ljósmynd/Lögreglan

Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri, lét af störfum við embætti lögreglustjórans á Suðurlandi nú um mánaðamótin og var hann kvaddur í hófi á skrifstofu embættisins á Hvolsvelli síðastliðinn þriðjudag.

Kjartan hefur verið lögreglustjóri frá stofnun embættis lögreglustjórans á Suðurlandi þann 1. janúar 2015. Starfsferill hans í þágu hins opinbera spannar hins vegar mun lengri tíma eða rúm 40 ár, fyrst sem fulltrúi sýslumanns í Rangárvallasýslu árið 1982, síðan sem sýslumaður í Ólafsfirði, á Blönduósi og í Rangárvallasýslu.

Lögreglumenn stóðu heiðursvörð við komu Kjartans til fundar yfirstjórnar á þriðjudag og í framhaldi af því var vel sótt kaffisamsæti með samstarfsfólki hans, þar sem samstarfsmenn Kjartans þökkuðu honum heilladrjúgt samstarf.

Nýr lögreglustjóri á Suðurlandi er Grímur Hergeirsson. Grímur þekkir lögreglustarfið á Suðurlandi vel en hann hefur starfað hjá lögreglunni á Selfossi, sýslumanninum á Selfossi og síðar lögreglustjóranum á Suðurlandi með hléum frá árinu 1997.

Fyrri greinSamið við Selásbyggingar um skrifstofubyggingu UTU
Næsta greinHikuðu hvergi gegn toppliðinu