Kjartan gefur „Sjóðnum góða“ miða

Kjartan Björnsson, tónleikahaldari, afhenti í vikunni „Sjóðnum góða“ aðgöngumiða á jólatónleikana Hátíð í bæ sem fram fara þann 4. desember næstkomandi í Iðu á Selfossi.

Þetta er þriðja árið í röð sem Kjartan gefur sjóðnum miða á tónleikana og tók sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur á Selfossi, við miðunum fyrir hönd sjóðsins. Sóknir þjóðkirkjunnar, Rauði krossinn, kvenfélögin, Lions og fleiri aðilar sem sinna líknarmálum og félagslegri aðstoð í Árnessýslu hafa samvinnu um sjóðinn sem ætlaður er til aðstoðar þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum fyrir hátíðirnar.

Tónleikarnir Hátíð í bæ eru nú haldnir í sjöunda sinn en í ár koma yfir 150 listamenn fram á tónleikunum, meðal annars Helgi Björns, Páll Óskar, Kristjana Stefáns, Lúðrasveit Þorlákshafnar, Barna- og unglingakór Selfosskirkju, Maríanna Másdóttir og Karlakór Selfoss.

Fyrri greinLettarnir látnir lausir
Næsta greinBaniprosonno og Putul með listasmiðju fyrir börn