Kjarreldur á Þingvöllum

Laust eftir kl. 13 í gær kom upp eldur í kjarri norðan við Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum.

Eldurinn mun hafa kviknað út frá grillkolum. Starfsmenn þjóðgarðsins réðu ekki við eldinn og kölluðu eftir aðstoð Brunavarna Árnessýslu sem sendu bíla á vettvang frá Selfossi og Laugarvatni.

Síðdegis á fimmtudag var slökkvilið sent að Reykjanesi í Grímsnesi vegna sinuelds. Líkur eru á að hann hafi kviknað út frá glóð úr reykjarpípu eftir að maður hafði slegið úr henni yfir spítnabraki þar sem undir leyndist sina.

Lögreglan brýnir fyrir fólki að fara gætilega með eld og grillkol úti í náttúrunni.