Kjalvegur er „óboðlegur vegslóði“

Oddvitar þriggja sveitarfélaga og sjö ferðaþjónustufyrirtæki hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er mótmælt að Kjalvegur sé ekki inni á samgönguáætlun eða verkefnaáætlun í vegagerð.

Alþingi hefur samþykkt stefnumarkandi samgönguáætlun til tólf ára og verkefnaáætlun til fjögurra ára. Í hvorugri þeirra er að finna neitt um endurbætur eða uppbyggingu á Kjalvegi. Þeir sem standa að yfirlýsingunni, meðal annars Bláskógabyggð og Hrunamannahreppur, segja það algjörlega óviðunandi.

„Akstursleiðin um Kjöl er í orði kveðnu „vegur í grunnneti“ og „stofnvegur um hálendi“ en er í raun óboðlegur vegslóði að stórum hluta. Eigi ökuleiðin að standa undir nafni sem vegur í hinni opinberri samgönguáætlun verða nauðsynlegar endurbætur að komast strax á blað og til framkvæmda hjá fjárveitingavaldinu, Alþingi,“ segir í yfirlýsingunni.

Þar er einnig bent á að ferðaþjónustan dragi vagn samfélagsins eftir hrun ásamt öðrum gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum. Ferðaþjónustan skilaði 238 milljörðum króna í gjaldeyristekjur á árinu 2012 og skilar enn meiru í ár.

„Stjórnvöld vilja fleiri erlenda ferðamenn og enn meiri gjaldeyristekjur af þeim en það kostar oft fjármuni að afla tekna! Endurbætur á Kjalvegi munu kosta brot af því sem þær skila ríkissjóði og ferðaþjónustunni. Við gefum okkur að margir kysu helst veg með bundnu slitlagi um Kjöl en ef ekki fást fjármunir til slíkra framkvæmda er lágmarkið að í stað niðurgrafins vegslóða komi greiðfær „ferðamannavegur“ sem stendur upp úr umhverfi sínu, “ segir ennfremur í yfirlýsingunni þar sem bent er á að óboðlegur Kjalvegur skemmi bíla og skaði ímynd landsins og ferðaþjónustunnar.

„Endurbættur Kjalvegur eflir ferðaþjónustuna, styrkir samgöngur milli Norðurlands og Suðurlands og eykur öryggi landsmanna í samgöngukerfinu. Það er ekki eftir neinu að bíða, “ segja aðstandendur yfirlýsingarinnar.

Undir hana rita Drífa Kristjánsdóttir, oddviti Bláskógarbyggðar, Ragnar Magnússon, oddviti Hrunamannahrepps og Þóra Sverrisdóttir, oddviti Húnavatnshrepps. Að yfirlýsingunni standa einnig Allrahanda ehf., Fannborg ehf., Fjallamenn ehf., Gljásteinn ehf., Hveravallafélagið ehf., SBA ehf. og Sterna ehf.