Kirkjunnar menn töluðu gegn miðaldakirkju í Skálholti

Mikil og almenn andstaða kom fram gegn hugmyndum um miðaldakirkju sem aðilar í ferðaþjónustu vilja reisa í Skálholti, á ráðstefnu Skálholtsfélagsins fyrir skömmu.

Athygli fundargesta vakti andstaða frá þeim talsmönnum kirkjunnar sem voru á staðnum en Kirkjuráð hefur þegar samþykkt að ganga til samninga um málið en það samþykki er þó háð vilja Kirkjuþings.

Umrætt hús er 600 fermetrar og ekki ætlað að vera „kirkja“ heldur móttöku- og þjónustuhús fyrir ferðamenn. Ekki liggur fyrir hverjir eru það eru sem hyggjast fjármagna umrædda byggingu og mikil leynd hvílir yfir verkefninu. Bæði skólaráð Skálholts og prestar á Suðurlandi hafa ályktað gegn áformunum.

Á fundinum töluðu meðal annars biskup Íslands frú Agnes Sigurðardóttir, vígslubiskup, staðarprestur og tveir kirkjuþingsmenn og laut málflutningur þeirra allra að því að horfa ætti til annarra átta við framtíðarskipulag Skálholts. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður var í pallborði ásamt fulltrúum heimamanna og voru allir í pallborði andsnúnir byggingu miðaldakirkju í hlaði hins fornfræga biskupsseturs.

Töldu margir að hér væri um að ræða afhelgun hins forna staðar og engin ástæða væri til að leggja ofurkapp á fjölda ferðamanna í Skálholti.

Einar Karl Haraldsson talaði fyrir miðaldakirkju og líkti gagnrýnendum framtaksins við Helgu Jónsdóttur biskupsfrú sem á sínum tíma lét höggva steinbogann á Brúará til þess að hamla umferð förumanna í Skálholt. Þeir Halldór Gunnarsson í Holti og Vignir Guðjónsson tóku undir með Einari Karli.

Fyrri greinSex sunnlensk bú tilnefnd
Næsta greinML sigraði í Lífshlaupinu