Kirkjan vill selja eignir á Suðurlandi

Fyrir Kirkjuþingi liggur tillaga um að selja nokkrar jarðir kirkjunnar á Suðurlandi og leggja niður þrjú prestssetur.

Þarna er um að ræða jörðina Eystri–Ása í Skaftárhreppi, Holt undir Eyjafjöllum, Sanda, sem er hluti af jörðinni Bergþórshvoli, Mosfell í Grímsnesi og Hraungerði í Flóahreppi.

Þá verða prestssetrin á Eyrarbakka, í Þorlákshöfn og Hveragerði lögð niður og fasteignirnar seldar.

Það er kirkjuráð sem leggur þetta til og í greinargerð með jarðasölunni segir fyrirsjáanlegt að ekki verði not fyrir þær í þjónustu kirkjunnar.

Hvað varðar prestssetrin þá er lagt til að þau leggist af við starfslok núverandi presta, eða að þeir flytji annað í prestakallinu.

Prestssetur hafa yfirleitt ekki verið lögð til á svæðum þar sem telja má eðlilegan fasteignamarkað vera fyrir hendi. Með hliðsjón af því að prestssetur eru ekki lögð til á Selfossi, þykir rétt að leggja þau ekki heldur til á þéttbýlisstöðum í nágrenni Selfoss.