Kirkjan kaupir Hafnargötu 10

Sveitarfélagið Árborg hefur samþykkt kauptilboð frá Stokkseyrarkirkju í fasteignina Hafnargötu 10 á Stokkseyri.

Hafnargata 10 er ein þeirra fasteigna sem sveitarfélagið auglýsti til sölu fyrr á árinu. Tilboð Stokkseyrarkirkju hljóðar upp á 5 milljónir króna og var það samþykkt á síðasta bæjarráðsfundi.

Á aðalsafnaðarfundi kirkjunnar í apríl sl. var samþykkt að gera tilboð í húsið sem stendur við hlið kirkjunnar og er ætlunin að þar verði safnaðarheimili. Nokkrar endurbætur þarf að gera á húsinu sem er byggt árið 1927.

Hafnargata 10 var síðast þjónustuskrifstofa sveitarfélagsins en á sínum tíma var þar hreppsskrifstofa Stokkseyrarhrepps og enn áður var rekin verslun í húsinu.

Fyrri greinÓkeypis tjaldstæði á Suðurlandi
Næsta greinFyrstu sigrar Jóhanns og Ívars