Kíkti á kettina og velti bílnum

Bílvelta varð við Kerið í Grímsnesi á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Kona sem ók bílnum slapp án teljandi meiðsla en bifreiðin er stórskemmd eftir að hafa farið þrjár veltur.

Konan var með tvo ketti í bílnum og leit í augnablik af veginum til þess að sinna þeim í búri sínu. Við það missti hún stjórn á bifreiðinni sem valt útfyrir veg.
Kettirnir hurfu út í nóttina á hlaupum en á Vísi kemur fram að konan muni hafa fengið aðstoð ættingja til þess að leita að dýrunum. Engar fregnir hafa borist af árangri þeirrar leitar.