Kerran svo þung að bíllinn lyftist að aftan

Í síðustu viku kærði lögreglan á Suðurlandi 72 ökumenn fyrir að aka of hratt. Flestir eða 25 voru á ferð í vesturhluta umdæmisins en sextán voru kærðir fyrir að aka of hratt á þjóðvegi 1 í Öræfum.

Þá voru tólf kærðir fyrir að aka of hratt í nágrenni Hvolsvallar.

Þrír voru kærðir fyrir að flytja of þungan farm á bifreiðum sínum. Tveir þeirra voru með allt að 10% umfram þunga en einn með meira en 30% umfram þunga. Sá var við vegavinnu og kvaðst einungis vera að aka stutta leið úr námu.

Einnig voru höfð afskipti af ökumanni pallbifreiðar með kerru í eftirdragi á leið sinni úr byggingarvöruverslun á Selfossi. Á kerru sem bíllinn dró var timburbúnt, svo afturþungt að þegar ýtt var á endann á því lyftist bifreiðin að aftan. Ökumaðurinn „ætlaði skamma vegalengd“ með timbrið en var gert að gera úrbætur áður en lengra var haldið. Í dagbók lögreglunnar segir að það sé fremur sjaldgæft að fundið sé að því að það vanti hleðslu á hásingar bifreiða.

Lögreglan kærði þrjá ökumenn vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiða sinna. Einn þeirra var einnig grunaður um að vera undir áhrifum áfengis. Annar mældist á 133 km/klst hraða á Sandskeiði þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst og viðurkenndi sá að hafa neytt kókaíns fyrir aksturinn. Tveir aðrir voru kærðir fyrir meinta ölvun við akstur, annar þeirra erlendur ferðamaður sem lauk máli sínu með sektargreiðslu og sviptingu ökuréttar daginn eftir að málið kom upp.

Fyrri greinÍ sjálfheldu á Fimmvörðuhálsi
Næsta greinFór með höndina í ullartætara