Kennslutæki FSu gömul og úrelt

Mest af öllum kennslutækjum á verknámssviði Fjölbrautaskóla Suðurlands eru orðin gömul og úr sér gengin, á meðan glænýtt húsnæði verður tekið í gagnið undir kennsluna í haust.

Ekki er heimild á fjárlögum til kaupa á nýjum tækjum og búnaði nema fyrir 80 milljónir króna en lauslega áætlað er kostnaður við kaup þeirra tækja sem þarf til kennslunnar nær því að vera 200 milljónir króna.

Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari sagði í samtali við Sunnlenska að nauðsynlegt verði að forgangsraða kaupum, fyrst verði keyptir stólar, borð og kennslutöflur en annað verði mögulega að bíða.

„Það hefur ekki verið keyptur búnaður í skólann í langan tíma, meðal annars vegna þess að verið var að bíða eftir nýju húsnæði,“ segir skólameistari. Sér í lagi vantar búnað í málmdeildina, þar sem tækniþróun hefur verið afar hröð á fáeinum árum. Rennibekkir sem vantar til kennslunar geta kostað margar milljónir króna hvert stykki.

Olga segir að farið verði fram á aukafjárveitingu frá ríkinu en það geti reynst erfitt.

Hún hafi látið berast til fyrirtækja á Suðurlandi hvernig staðan sé, og sumir horfa til þess að koma á samstarfi og stuðningi af hálfu stærri fyrirtækja og einkaaðila vegna kaupa á búnaðinum sem þarf til kennslunnar.

Verkefnið sé hinsvegar ríkisins, og hún skilur afstöðu sveitarfélaganna að þau geti ekki hlaupið undir bagga í slíku verkefni.

„Ég lái þeim það ekki,“ segir Olga Lísa. Mikil áhersla hefur verið lögð á kennslu í iðngreinum þar sem fjölda fólks vantar í slíkar greinar á vinnumarkaði, og var það meðal annars grundvöllur þess að ráðist var í verulega stækkun verknámshússins Hamars við FSu.

Olga Lísa segir að enn séu til mörg tæki í geymslu sem voru í gamla húsnæðinu, en mörg þeirra, ef ekki flest eru nánast úrelt til kennslu. „En við þorum ekki að henda þeim ef svo fer að við fáum ekkert í staðinn,“ segir Olga Lísa.