Kennsla hafin í Stekkjaskóla við Heiðarstekk

Ljósmynd/Stekkjaskóli

Í gær hófst kennsla í Stekkjaskóla, nýjasta grunnskóla á Selfossi, í færanlegum kennslustofum við Heiðastekk. Frá því í haust hefur kennsla í skólanum farið fram í frístundaheimilinu Bifröst í Vallaskóla.

Húsnæðið sem nú er tekið í notkun er samtals 1.200 fermetrar og samanstendur af átta kennslustofum, matsal, starfsmannaðastöðu og breiðum og góðum gangi sem tengir stofurnar saman. Heimastofur nemenda eru sex talsins en auk þess er ein fjölnota stofa þar sem tónmennt er m.a. kennd og ein list- og verkgreinastofa fyrir textílmennt og smíði. Lögð er áhersla á vellíðan nemenda og fjölbreytta kennsluhætti þar sem mikil áhersla er á að nota upplýsingatækni í námi og kennslu.

Í haust hófu 104 nemendur nám í Stekkjaskóla í 1.-4. bekk. Starfsmenn skólans eru 28 í 23 stöðugildum.

Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu Árborg sunnlenska.is komu nokkrir forsvarsmenn sveitarfélagsins í heimsókn í skólann síðastliðinn föstudag til að færa starfsfólkinu hamingjuóskir, blóm og konfekt.

Ljósmynd/Stekkjaskóli
Fyrri grein56 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinÞrettán mörk frá Ísaki dugðu ekki til