Kennarar „veikari“ en í fyrra

Veikindadögum fagfólks í grunnskólum Árborgar hefur fjölgað milli ára. Forföll grunnskólakennara voru rædd á síðasta fundi fræðslunefndar Árborgar.

Málfríður Garðarsdóttir, fulltrúi foreldra í fræðslunefnd, óskaði eftir þessum upplýsingum á fundi nefndarinnar og hvort um auknin forföll væri að ræða vegna álags.

Borinn var saman fjöldi skráðra veikindadaga í janúar til nóvember árin 2009 og 2010. Veikindadagar á árinu 2009 að meðaltali 0,95 dagar á mánuði á hvern starfsmann og á árinu 2010 1,39.

Ljóst er að veikindadögum fagfólks í grunnskólum hefur fjölgað á milli umræddra ára en í fundargerð fræðslunefndar segir að mjög erfitt sé að greina hvort aukningin sé vegna aukins álags þó svo að í einstaka tilfellum geti það verið.

Mest ber á veikindum vegna umgangspesta sem koma misjafnt niður á starfsfólki milli ára. Einnig eru dagar vegna langtímaveikinda inni í framangreindum tölum sem vega þungt í fjölda veikindadaga.

Fyrri greinBæjartréð fauk um koll
Næsta greinGunnar gefur vinnu sína