Kebabvagninn opnar í dag

Valli Reynis fyrir utan kebab vagninn á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Veitingastaðurinn Kebab Selfoss hefur notið þónokkurra vinsælda síðan hann opnaði snemma á þessu ári. Í dag opnar svo kebabvagn við Sigtún 1a, fyrir neðan leikhúsið á Selfossi.

Gunnar Valgeir Reynisson, betur þekktur sem Valli Reynis sem Ingó veðurguð samdi um ódauðlegt lag, er maðurinn á bak við kebabstaðinn.

Aðspurður hvernig það hafi komið til upphaflega að opna kebabstað segir Valli að honum hafi einfaldlega fundist vanta kebab í matarflóruna á Selfossi. „Húsnæðið stóð autt og það kom til tals milli mín og eigandans þess að leigja það. Ég var alltaf með kebab í huga vegna þess að ég fæ mér alltaf kebab þegar við hjónin erum í útlöndum og mér fannst vanta stað eins og þennan á Selfoss,“ segir Valli í samtali við sunnlenska.is.

Lentu strax í covid
„Við opnuðum 30. janúar og viðtökurnar voru frábærar en lentum strax í covid í febrúar. Við erum enn að bíða eftir að túristarnir komi til baka því flest allir þekkja kebab frá sínum löndum og þarf ekki að auglýsa það því staðurinn heitir Kebab Selfoss,“ segir Valli en fyrir þá sem ekki vita er Kebab Selfoss staðsett við Eyraveg 3.

Á Kebab Selfoss er hægt að fá fjölbreytta kebab rétti, annað hvort á diski eða í vefjum ásamt ýmsum öðrum réttum. „Minn uppáhalds réttur er kebabbrauð með kjúkling og hvítlaukssósu og chillimajo blandað saman,“ segir Valli og bætir því við að hann hafi lést um tvö kíló síðan hann opnaði staðinn. „Þetta er bara kjúlli, lamb, grænmeti og brauð – alveg mein hollt. Ég er 84 kíló, 1.69 og með allt upp á tíu,“ segir Valli og hlær dátt.

Útsýni yfir Ölfusá og Ingólfsfjall
Kebabvagninn opnaði í morgun við Sigtún 1a á Selfossi. „Ég heyrði oft frá fólki að það væri ekki að koma vegna bílastæðavandamála hjá okkur sem er að lagast þar sem um tvö hundruð bílastæði verða gerð fyrir aftan kebabstaðinn í tengslum við nýja miðbæinn, fyrir næsta sumar. Ég ákvað svo að kaupa Kebabvagninn til að geta boðið upp á enn betri þjónustu beint í bílinn og meiri afgreiðsluhraða og eru um tíu bílastæði til að borða matinn sinn í rólegheitum og horfa á Ölfusá og Ingólfsfjall. Mér finnst ekki nóg að selja bara matinn og fólk þarf svo að keyra eitthvað í burtu til að finna stað til að borða,“ segir Valli.

Valli segir að kebab vagninn muni svo fara á útihátíðir næsta sumar. „Í staðinn mun koma færanlegt hús á sama stað – ef samþykktir fást – þar sem vagninn er núna. Það eru allavega mínar hugmyndir ef allt gengur vel.“

„Ég vil hvetja bara alla til að koma og smakka gómsætta kebabrétti og borða í rólegheitum við Ölfusá. Einnig eru trébekkir á lokuðu svæði sem taka 24 í sæti og 2-3 bekkjum verður bætt við næsta sumar við árbakkann,“ segir Valli að lokum.

Fyrri grein64 í einangrun og 64 í sóttkví
Næsta greinNýsköpunarakademía ferðaþjónustunnar sett á fót