Kaupverð gæti verið nálægt milljarði króna

Viðræður fulltrúa Hveragerðisbæjar og Orkuveitu Reykjavíkur hefjast í lok þessarar viku en Hvergerðingar vilja kaupa Hitaveitu Hveragerðis út úr OR.

Orkuveitan keypti Hitaveitu Hveragerðis árið 2004 og nam kaupverðið 260 milljónum króna að teknu tilliti til yfirtekinna skulda. Það eru 370 m.kr. að núvirði. Því til viðbótar segja heimildir Sunnlenska að OR hafi varið á milli 500 og 600 m.kr. í að endurnýja og bæta dreifi­kerfið í Hveragerði. Kaupsamningur um hitaveitu Hveragerðis er ótíma­bundinn en í honum er gagnkvæmt uppsagnarákvæði þar sem hvor aðili um sig getur sagt honum upp með 15 ára fyrirvara. Skal þá meta eignir og miða við endurstofnverð og hlutfall aldurs af áætluðum líftíma eignanna.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að hitaveitan hefði verið seld á gjafverði á sínum tíma og benti hún á að Hitaveita Ólafsfjarðar hefði verið seld á svipuðum tíma fyrir 600 milljónir króna og væri hún þó mun minni.

Samkvæmt upplýsingum sem Sunnlenska hefur frá OR var ástand hitaveitunnar mjög slæmt þegar OR tók hana yfir. Er vísað til þess að frá kaupunum hafi OR gert gagngerar umbætur á hitaveitunni, sem hefur verið sú frekasta á viðhald í rekstri hjá OR. Árið 2008 var þriðja hver tilkynning til OR vegna bilunar í hitaveitu vegna veitunnar í Hveragerði. Viðskiptavinir OR í Hveragerði eru hins vegar 2% af hitaveitu­viðskipta­vinum OR. Lætur nærri að tilkynnt hafi verið um bilun í veitukerfinu annan hvern dag, allt árið 2008.

Þessar upplýsingar dregur Aldís í efa. Hún bendir á að þegar hitaveitan var seld hafi verið búið að endurnýja 40% af dreifikerfinu. ,,Ég dreg því í efa þessar tölur um bilanatíðni. Mér finnst það ekki koma heim og saman við umfangið á hitaveitunni,“ sagði Aldís. Aðspurð sagði hún ekki tímabært að ræða verðhugmyndir þeirra Hvergerðinga.

Fyrri greinKanna lagningu ljósleiðara í dreifbýli
Næsta greinLeiðin á Breiðbak ekki stikuð