Kaupin ekki háð leyfi eftirlitsnefndar

Sveitarfélagið Árborg þurfti ekki undanþágu frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga við kaupin á Björgunarmiðstöð Árborgar.

Sveitarfélagið greiðir 192 milljónir króna fyrir Björgunarmiðstöðina og fjármagnar Íslandsbanki kaupin að fullu.

Að sögn Ástu verður sveitarfélagið sjálft eigandi hússins en ekki verður stofnað sérstakt félag um eignina. Rekstur þess verður í svokölluðum B-hluta rekstur sveitarfélagsins, líkt og t.d. vatns­veita og fráveita. Í þeim tilvikum eru stofnanir reknar fyrir eigin tekjur en ekki skattfé.

Athygli vekur að sveitarfélag í þeirri fjárhagslegu stöðu sem Árborg er í skuli geta aukið skuldir og skuldbindingar sínar að slíku marki. Ásta segir að leigutekjur frá Brunavörnum Árnessýslu og Heilbrigðisstofnun Suðurlands eigi að standa undir afborgunum lána og rekstrarkostnaði hússins.

„Þá er sveitarfélagið ekki komið í þá stöðu að vera háð samþykki eftirlitsnefndar hvað útgjöld varðar, en ber að gera nefndinni grein fyrir til hvaða aðgerða verði gripið sökum þess hve hlutfall heildarskulda og skuldbindinga af heildartekjum er hátt og framlegð lítil skv. ársreikningi 2009. Ljóst er því að áfram þarf að sýna verulegt aðhald í rekstri og mun fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár taka mið af því,“ segir Ásta.

Fyrri greinNiðurskurður kominn yfir þolmörk
Næsta greinRéðst á fyrrverandi sambýliskonu