Kaupa þrjár fjölnota menningarstúkur

Menningarnefnd Sveitarfélagsins Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að beina því til bæjarstjórnar að ganga til samninga við Litla-Hraun um smíði á þremur fjölnota menningarstúkum.

Um er að ræða þrisvar sinnum 33 trébekki, samskonar þeim sem trésmíðadeild Litla-Hrauns hefur smíðað á undanförnum árum. Verða með þessu til þrjú sett, hvert sett með 99 sætum, samtals 297 sæti.

Hvert sett verður staðsett í byggðakjörnunum þremur; Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi en hægt verður að færa þau á milli staða eftir því sem þörf er á. Hægt er að nota menningarstúkurnar við hinar ýmsu útisamkomur og mannamót; svo sem við íþróttavellina við ströndina, keppnis- /æfingavelli á Selfossi og á hinum fjölmörgu hverfa- og bæjarhátíðum sem eru í Sveitarfélaginu Árborg. Þá eru ýmsir möguleikar á að nota menningarstúkurnar á samkomum sem eru innandyra.

Það var Björn Ingi Bjarnason sem lagði fram tillöguna en nefndin leggur til við bæjarstjórn að þegar verði hafist handa við fyrsta hluta af þremur í byggingu menningarstúka fyrir sveitarfélagið.

Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 500.000 krónur fyrir hvert sett, samtals um 1,5 milljón króna.

Fyrri greinSara og Díva sigruðu
Næsta greinBikarleikirnir í beinni