Katrín Ósk ráðin markaðs- og menningarfulltrúi Ölfuss

Katrín Ósk Sigurgeirsdóttir hefur verið ráðin í starf markaðs- og menningarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss. Katrín tekur við af Barböru Guðnadóttur sem gengt hefur starfi menningarfulltrúa síðastliðin 12 ár.

Starfsheitinu var breytt í menningar- og markaðsfulltrúa árið 2015 en aukin áhersla hefur verið lögð á markaðs-, kynningar- og atvinnumál síðustu ár.

Katrín Ósk sem hefur búið í Þorlákshöfn frá 18 ára aldri, er með diploma í starfstengdu ferðafræðinámi og hefur síðustu ár starfað að markaðstengdum verkefnum í ferðaþjónustu og stjórnun viðburða. Katrín starfaði um tíma sem hótelstjóri hjá ION Adventure Hotel á Nesjavöllum en hefur síðustu ár verið verkefnastjóri sölu- og framkvæmdasviðs ION Hotel í Reykjavík.

Katrín Ósk hefur störf í lok júlímánaðar og verður fyrsta verkefni hennar að halda utanum framkvæmd Hafnardaga, bæjarhátíðar Ölfuss ásamt framkvæmdastjórn.

Frá þessu er greint á heimasíðu Ölfuss.