Katrín Aagestad Gunnarsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri Nettó og Kjörbúðanna. Hún kemur til fyrirtækisins frá Prís og Heimkaupum þar sem hún sá um vörumerkjaþróun og markaðsmálin síðustu tvö ár.
Katrín hefur víðtæka reynslu af markaðsmálum og uppbyggingu á vörumerkjum. Hún starfaði áður hjá Nova í fimm ár m.a. sem markaðsstjóri og vann þar að fjölbreyttum verkefnum. Áður starfaði hún við kvikmyndagerð hjá Pegasus og tók meðal annars þátt í verkefnum fyrir HBO og Netflix. Þá starfaði hún einnig hjá alþjóðlega tæknifyrirtækinu Phillips í Kaupmannahöfn við grafíska miðlun auk margra verkefna á sviði vörumerkjahönnunar.
Katrín lauk AP gráðu í margmiðlunarhönnun árið 2016 og BA gráðu í vörumerkjaþróun árið 2018 frá Copenhagen School of Design and Technology.
„Það er virkilega spennandi vegferð framundan hjá Nettó og Kjörbúðunum og mörg ný tækifæri til að bæta þjónustu og vöruúrval fyrir okkar góðu viðskiptavini í öllum þeim 39 verslunum um landið allt. Eitt fyrsta verkefnið mitt í nýju starfi hefur verið taka þátt í að skerpa á sérstöðu Nettó til framtíðar og einblína á upplifun viðskiptavina. En við bjóðum viðskiptavinum okkar upp á skemmtilegt vöruúrval auk þess að mæta þörfum þeirra sem setja heilsusamlegan lífsstíl í fyrsta sæti.” segir Katrín Aagestad Gunnarsdóttir, markaðsstjóri Nettó og Kjörbúðarinnar.

