
Katla jarðvangur hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu árið 2025 fyrir hönnun og bætt öryggi með nýjum útsýnisstíg og myndatökustað við Eyjafjallajökul. Þar hefur vinsæll ferðamannastaður við þjóðveginn nú tekið miklum og jákvæðum breytingum.
Um er að ræða nýjan 220 m langan útsýnisstíg við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, sem leiðir fólk frá bílastæðinu við Þorvaldseyri og út að útsýnisstað fyrir Eyjafjallajökul.
Á leiðinni eru sextán mynda- og upplýsingaskilti og sýni úr mismunandi bergtegundum. Myndaskiltin segja sögu gossins í Eyjafjallajökli, stuttur texti á hverju skilti útskýrir það sem fyrir augun ber og einnig er texti um þá bergtegund sem er við skiltið. QR kóðar eru á öllum skiltunum sem leiða fólk inn á heimasíðu jarðvangsins þar sem það getur lesið meira um eldgosið og bergsýnin ásamt því að sjá fleiri myndir úr eldgosinu.
Við enda göngustígsins og á útsýnisstaðnum sjálfum eru nokkrir stórir stuðlabergssteinar sem hægt er að nota sem sæti á meðan fólk virðir útsýnið fyrir sér. Fyrir aftan skiltin er band sem lokar af svæðið á milli göngustígsins og þjóðvegar 1, til þess að fá fólk til að halda sig á stígnum og ekki hætta sér nær þjóðveginum.
Verkefnið hlaut styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en framkvæmdin er samvinnuverkefni Kötlu Jarðvangs, sveitarfélagsins Rangárþings eystra og landeiganda.