Kastaðist út úr bílnum og fótbrotnaði

Sautján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á Suðurlandi í vikunni. Í einu tilviki var um ölvunarakstur að ræða er ökumaður missti stjórn á bifreið sinni sem valt á Hrunavegi skammt frá Grafarbakka aðfaranótt fimmtudags.

Hann kastaðist út úr bifreiðinni og fótbrotnaði. Félagi hans sem var með honum hlaut minni háttar áverka. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala þar sem gert var að beinbrotinu.

Lögreglumenn á Suðurlandi sinntu 243 verkefnum í liðinni viku. Verkefnin voru af ýmsum toga en þó hefur áherslan verið á eftirlit með umferð. Í vikunni voru 34 kærðir fyrir hraðakstur. Fimm ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur.

Meðal annars barst lögreglunni í Vík tilkynning um fé í lausagöngu á og við þjóðveg 1 í Mýrdal. Leyst var úr málinu en lögreglan bendir ökumönnum á að nú þegar vorar verði þeir að hafa fulla aðgát vegna lausagöngu búfjár.