Kastaði snjóboltum úr bíl á ferð

Lögreglumenn á ómerktum lögreglubíl á leið í verkefni veittu, í síðustu viku, athygli einkennilegu aksturslagi bifreiðar á Austurvegi á Selfossi.

Fylgst var með bílnum og ekki leið á löngu að snjóboltar flugu út um hliðarrúður hans. Greinilegt var að ökumaðurinn var að kasta þeim í bíla sem urðu á vegi hans.

Bifreiðinni var veitt eftirför þar sem henni var ekið greitt inn á Bankaveg þar sem börn voru að leik í snjóruðningum við götuna. Þar er skóli og Sundhöll Selfoss. Þegar loksins tókst að stöðva ökumanninn kom í ljós að hann og farþegi hans höfðu hnoðað marga snjóbolta og voru nokkrir þeirra í gólfinu hjá ökumanni.

Kom þar skýring á sveiflukenndum akstri ökumannsinns rétt áður en hann átti það til að missa tök á akstrinum þegar hann var að teygja sig eftir snjóboltum.

Ökumaðurinn var færður á lögreglustöðina þar sem hann var yfirheyrður. Hann verður kærður fyrir umferðarlagabrot.