Kastað til bata í Hveragerði

Hópur á vegum verkefnisins „Kastað til bata“ dvaldi í Hveragerði nýverið og veiddi í Varmá í nokkra daga.

Verkefnið Kastað til bata er samstarfsverkefni Samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélags Íslands og styrktaraðila þar sem fjórtán konum er boðið að taka þátt en þær eiga það allar sameiginlegt að hafa greinst með brjóstakrabbamein. Er verkefnið hugsað sem endurhæfing fyrir þær konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini.

Markmið þessarar veiðiferðar er að veita konum tækifæri til að styrkja sig á líkama og sál með því að æfa flugukast í fallegu umhverfi og njóta samvista við veiðifélaga með svipaða reynslu. Vanir fluguveiðimenn kenna þátttakendum að veiða á flugu þannig að engin þarf að óttast það að hafa ekki kunnáttu í veiðiskap.

Verkefnið er upphaflega stofnað árið 1996 í Bandaríkjunum og kallast þar Casting for recovery. Hér á Íslandi hefur verið staðið fyrir þessu verkefni í mismunandi veiðiám frá árinu 2010.

Fyrri greinBjörninn unninn
Næsta greinLeiðarinn bauð lægst í ljósleiðaralögn í Flóahreppi