Kassabílar brunuðu yfir nýju brúna

Oddvitar sveitarfélaganna tvegga ýttu kassabílum með börnum af svæðinu yfir brúna. Ljósmynd/Vegagerðin

Ný tvíbreið brú yfir Stóru-Laxá í Hreppum var opnuð formlega í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar héldu stuttar ræður á brúnni áður en þau klipptu á borða til að marka hina formlegu opnun.

Með þeim í því verkefni voru þeir Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Jón Bjarnason, oddviti Hrunamannahrepps. Stóra-Laxá liggur enda á mörkum sveitarfélaganna tveggja.

Hefð hefur verið fyrir því að ráðherra fari fyrstur yfir brýr eftir formlega opnun en í þetta sinn voru það börn af svæðinu sem fengu þann heiður en fararskjótarnir voru forláta kassabílar sem þeir Haraldur og Jón ýttu yfir brúna.

Brúin var opnuð fyrir umferð þann 25. júní síðastliðinn en hún kemur í stað einbreiðrar 120 m langrar brúar frá árinu 1985.

Stefnt er að því að gamla brúin fái nýtt hlutverk sem göngu- og reiðbrú. Brúna þarf að lagfæra fyrir þetta nýja hlutverk t.d. með uppsetningu nýrra handriða. Gamla brúin tengir saman reiðleiðir sitt hvoru megin við Stóru Laxá.

igurður Ingi Jóhannsson, Jón Bjarnason, Haraldur Þór Jónsson og Bergþóra Þorkelsdóttir. Ljósmynd/Vegagerðin
Fyrri greinHvað get ég gert í sumarfríinu til að örva málþroska barnsins míns?
Næsta greinBanaslys á Þrengslavegi