Karlmaður dæmdur í gæsluvarðhald

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í gærkvöldi, að kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi, karlmann í gæsluvarðhald til klukkan 16:00 næstkomandi föstudags vegna rannsóknarhagsmuna.

Maðurinn er grunaður um kynferðisbrot gegn tveimur konum í gærmorgun á hóteli á Suðurlandi.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að rannsóknin sé á viðkvæmu stigi en miði vel. Annars veitir lögreglan ekki frekari upplýsingar á þessu stigi málsins.

Í tíufréttum RÚV kom fram að maðurinn hafi verið á árshátíð hjá fyrirtæki þar sem hann starfar ásamt konunum tveimur sem hann er grunaður um að hafa brotið gegn. Samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV voru konurnar í sitthvoru herberginu og mun hann hafa farið inn til þeirra og brotið gegn þeim þar.