Karl og kona talin hafa látist í brunanum

Margt býr í háloftunum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ennþá er unnið að slökkvistarfi í einbýlishúsi við Kirkjuveg á Selfossi. Talið er að karlmaður og kona sem voru á efri hæðinni þegar eldurinn kom upp hafi látist í brunanum.

Ekki er unnt að staðreyna það með óyggjandi hætti fyrr en slökkvistarfi er lokið, húsið kólnað og vettvangur hefur verið tryggður vegna hrunhættu og mun vinna við það að líkindum hefjast í fyrramálið.

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að aðstandendum þeirra sem saknað er hafi verið kynnt staða málsins.

Tilkynning um eld í húsinu barst neyðarlínu kl. 15:53 í dag. Húsið er gamallt, hæð og ris og einangrað með frauðplasti, að minnsta kosti að hluta.

Tveir einstaklingar sem handteknir voru á vettvangi í þágu rannsóknar málsins eru í haldi lögreglu.  Ekki hefur verið unnt að taka skýrslu af þeim vegna ástands þeirra. Eldsupptök eru ókunn.

Fyrri greinÓskar formaður nítjánda árið í röð
Næsta greinBrunavettvangur afhentur lögreglu