Kári klófesti fyrsta Ölfusárlaxinn

Kári kampakátur með fyrsta Ölfusárlax sumarsins. Ljósmynd/Þórhildur Hjaltadóttir

Fyrsti Ölfusárlaxinn í sumar kom á land síðastliðinn miðvikudag þegar Kári Jóhannsson landaði vænni hrygnu á miðsvæðinu við Hrefnutanga.

Þetta var í fyrsta skipti sem Kári rennir fyrir lax í Ölfusá en hann komst ekki á svæðið fyrr en í hádeginu vegna vinnu. Það kom ekki að sök, Kári var búinn að vera á bakkanum í um það bil tíu mínútur þegar laxinn beit á.

Hrygnan reyndist 10,5 pund og 76 sentimetrar og tók HKA Bismó flugu. Henni var sleppt að lokinni myndatöku.

Veiði í Ölfusá hefur verið dræm fyrstu vikuna en í gær veiddist annar lax sumarsins, tæplega sjö punda hrygna og var henni sömuleiðis sleppt.

Fyrri greinFonsi sökkti toppliðinu með þrennu á níu mínútum
Næsta greinKótelettan stækkar og fagnar 15 ára afmæli