Verslanir Kappahl og Newbie munu opna í vor á Selfossi. Þær eru hluti af 9 verslana keðju sem opnar á Íslandi í gegnum sérleyfissamning við Lóu D. Kristjánsdóttur og Albert Þór Magnússon.
Báðar verslanirnar á Selfossi verða í Larsenstræti 5, þar sem Lindex er nú til húsa. Áætlað er að verslanirnar opni í vor í helstu verslunarmiðstöðum á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni. Samhliða verða opnaðar netverslanir Newbie.is og Kappahl.is.
Heiður að fá sérleyfi Kappahl Group
„Selfyssingar fá bæði Kappahl og Newbie og allar vörulínur. Svo í raun fá viðskiptavinir allt sem þeir fengu áður og meira. Dömur sem innihalda undirföt og XL stærðir, karlafatnað og börn. Auk þess er Newbie algjör stjarna. Þegar ég segi XL stærðir er það semsagt sérstök XLNT lína sem inniheldur stærri stærðir,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir í samtali við sunnlenska.is.
„Við höfum dáðst að Kappahl og Newbie í mörg ár, ekki aðeins fyrir skandinavíska hönnun og gæði, heldur einnig að gildum fyrirtækisins, leiðandi stöðu í sjálfbærni og einlæga virðingu fyrir fjölskyldum og samstarfsfólki. Að vera valin fyrsti sérleyfishafi Kappahl Group á heimsvísu er mikill heiður. Við erum afar stolt að hefja þennan nýja kafla og hlökkum mikið til að taka á móti íslenskum viðskiptavinum inn í heim Kappahl og Newbie,“ bætir Lóa við.

Leiðandi tískuvörumerki í Skandinavíu
Kappahl var stofnað í Svíþjóð árið 1953 og rekur í dag 345 verslanir í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Póllandi og Bretlandi. Fyrirtækið hefur fest sig í sessi sem eitt af leiðandi tískuvörumerkjum Skandinavíu, með ríka áherslu á sjálfbærni, sígildar grunnflíkur, undirfatnað og tískufatnað fyrir konur, karla og börn.
Newbie er barna- og lífsstílsvörumerki Kappahl, þekkt á Norðurlöndum og í Bretlandi fyrir mjúk lífræn efni, rómantísk skandinavísk mynstur og tímalausa hönnun sem ætluð er að endast og ganga milli kynslóða. Newbie verslanir eru 25 en vörumerkið er einnig selt í völdum Kappahl-verslunum sem og á netinu.
Gætum ekki hugsað okkur betri samstarfsaðila
„Ísland er okkur afar mikilvægt markaðssvæði. Íslenskir viðskiptavinir hafa lengi óskað eftir okkar sterku vörumerkjum og nú þegar við höfum fundið frábæran samstarfsaðila er tímasetningin fullkomin til að stíga inn á íslenska markaðinn,“ segir Elisabeth Peregi, forstjóri Kappahl Group.
„Albert og Lóa hafa sýnt fram á einstaka hæfni í uppbyggingu tískuvörumerkja á Íslandi. Við gætum ekki hugsað okkur betri samstarfsaðila til að leiða þetta sögulega skref fyrir Kappahl og Newbie. Við erum full eftirvæntingar að bjóða íslenskum viðskiptavinum að upplifa Kappahl/Newbie heiminn sem einkennist af góðum gæðum, samfélagslegri ábyrgð og fallegri hönnun,” bætir Elisabeth við að lokum.

