Kanna möguleika til fjármögnunar hjá opinberum aðilum

Á síðasta fundi Byggðaráðs Rangárþings eystra kom fram tillaga frá Kristínu Þórðardóttur, fulltrúa D lista, um að sveitarfélagið myndi kanna möguleika til fjármögnunar á viðhaldi Seljavallarlaugar hjá opinberum aðilum.

Minjastofnun hefur bent á þörf á bættu viðhaldi Seljavallalaugar og tekur Byggðarráð Rangárþings eystra undir áhyggjur stofnunarinnar.

„Laugin er afar merk framkvæmd og mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk. Í gegnum tíðina hefur lauginni verið haldið við af sjálfboðaliðum en ljóst er að nú þarf að leggja í talsverðan kostnað við mannvirkin til að þau líti sem best út og til að tryggja endingu þeirra. Eftirsóknarvert er að viðhalda þessu einstæða mannvirki og ljóst þykir að stjórnvöld hafa sýnt varðveislu menningarminja aukinn áhuga síðastliðið ár, sem er vel,“ segir í greinargerð sem fylgdi tillögunni.

Tilgangur tillögunar er sá að farið verði markvisst í að kanna hvort og þá hvernig sveitarfélagið og opinberir aðilar geti lagt þessu verkefni lið.