Kanna möguleika á eigin rafveitu

Fulltrúar Bláskógabyggðar og Hrunamannahrepps ásamt Sambandi garðyrkjubænda og Sölufélagi garðyrkjumanna undirrituðu í morgun viljayfirlýsingu um að kanna möguleika á að reisa eigin rafveitu sem þjónað gæti ylræktendum á Flúðum, í Laugarási og Reykholti.

Markmið samstarfsins er að undangengnu frekara hagkvæmnismati veitunnar að afla heimilda til að reisa og reka dreifikerfi rafmagns fyrir íslenska garðyrkju. Áreiðanleiki útreikninga garðyrkjubænda um hagkvæmni dreifiveitu, sem lagðir hafa verið fram, verða skoðaðir og sannreyndir auk þess sem viðræður við stjórnvöld verði hafnar nú þegar, segir í tilkynningu.

„Hvati að samstarfinu er síhækkandi kostnaðar garðyrkjubænda vegna rafmagns og sérstaklega dreifingarhluta þess. Dreifingin hefur hækkað um 87% í þéttbýli og 105% í dreifbýli frá árinu 2005 á meðan verðlagsvísitala hefur hækkað um 67%. Nú er svo komið að rafmagnskostnaður er um 30% af rekstrarkostnaði ylræktenda og vegur því hver hækkun mikið. Ítrekað hefur verið reynt á undanförnum árum að fá leiðréttingu á kostnaði vegna dreifingar án mikils árangurs.

Forsögu samstarfsins má rekja til þeirrar staðreyndar að garðyrkjan er einn af mikilvægustu vinnuveitendum Bláskógabyggðar og í Hrunamannahreppi en um 80% af framleiðslu í ylrækt er af svæðinu. Að auki kemur stór hluti útiræktaðs grænmetis þaðan. Sveitarstjórnarmönnum er því umhugað um að rekstrargrundvöllur garðyrkjunnar verði ásættanlegur svo hann megi áfram blómstra,“ segir í tilkynningu.

Fyrri greinTveir dópaðir ökumenn teknir úr umferð
Næsta greinZodiac slöngubát stolið í Grímsnesi