Kanna lagningu ljósleiðara

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps er að láta kanna kostnað við lagningu ljósleiðara á öll heimili, fyrirtæki og hugsanlega sumarhús í sveitarfélaginu.

Nauðsynlegur þáttur í þeirri könnun er að finna hentugar lagnaleiðir og fá leyfi landeigenda til að leggja strenginn í jörð. Á næstu vikum munu fulltrúar Fjarska, sem sjá um hönnunina á strengnum, vera á ferðinni í sveitarfélaginu til að skoða lagnaleiðir og kynna verkið fyrir landeigendum.

Á vef sveitarfélagsins kemur fram að ekki verður tekin endanleg ákvörðun um hvort ráðist verður í framkvæmdina fyrr en þessari vinnu er lokið.

„Þetta er mikið framfaraskref fyrir íbúa í sveitarfélaginu ef af verður og mun geta veitt íbúum tækifæri umfram það sem almennt þekkist á landsbyggðinni. Til stendur að bjóða íbúum upp á ókeypis tengingu við ljósleiðarann og verðskrá fyrir notkun verður í hóf stillt,“ segir Gunnar Örn Marteinsson, oddviti, í dreifibréfi sem sent var á landeigendur í hreppnum.

Fyrri greinJarðvangurinn kynntur á skiltum
Næsta greinFær ekki vopnin aftur